Eiður: Það lélegasta sem ég hef séð (myndskeið)

Liðsmenn Aston Villa héldu að þeir hefðu tryggt sér stig á útivelli gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á laugardaginn er Henry Lansbury kom boltanum í netið í blálokin.  

Kevin Friend, dómari leiksins, dæmdi markið hins vegar af og gaf Jack Grealish gult spjald fyrir leikaraskap. Dómurinn var kolrangur og voru leikmenn Aston Villa augljóslega allt annað en sáttir. 

„Það er dómari á vellinum og það eru tveir aðstoðardómarar og það er fjórði dómari og svo eru menn í VAR-herberginu. Það eru sex eða sjö sem taka ákvörðun um að þetta sé dýfa og gult spjald. Ég á ekki til orð. Þetta er það lélegasta sem ég hef séð,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen í Vellinum sem sýndur er á Símanum Sport. 

„Af hverju er VAR þegar þeir horfa á þetta og segja að þetta sé gult spjald og dýfa? Það hlýtur einhver að vilja skoða þetta,“ bætti Eiður við, en atvikið og innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Jack Grealish fékk gult spjald fyrir leikaraskap.
Jack Grealish fékk gult spjald fyrir leikaraskap. AFP
mbl.is