Roy Keane hraunar yfir sir Alex

Sir Alex Ferguson og Roy Keane ræða málin.
Sir Alex Ferguson og Roy Keane ræða málin. AFP

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, skaut föstum skotum á sir Alex Ferguson í írska miðlinum Off The Ball. Keane lék undir stjórn Fergusons í 13 ár hjá Manchester United, en hann er ekki búinn að fyrirgefa stjóranum fyrir að láta sig fara frá félaginu árið 2005. 

„Ég ætla ekki að fyrirgefa Ferguson. Enska pressan lét það líta út eins og ég hefði valdið uppnámi hjá félaginu en það er algjört bull. Fólk talar um að hann hafi gert leikmenn betri og ávallt viljað það besta fyrir Manchester United en það er algjör þvæla,“ sagði Írinn. 

Keane var sérlega ósáttur við sérmeðferð sem fjölskyldumeðlimir sir Alex fengu. „Darren Ferguson (sonur hans) fékk medalíu sem leikmaður 1993. Hann var mjög heppinn því hann var ekkert góður. Bróðir hans var njósnari hjá félaginu lengi. Það kom mér á óvart að sjá konuna hans ekki vinna fyrir félagið.

Darren var stjóri Preston og fékk tvo lánsmenn frá Manchester United. Hann var svo rekinn og hvað gerðist? Lánsmennirnir voru kallaðir til baka. Var það gert til að gæta hagsmuna Manchester United? Að sjálfsögðu ekki.“

Keane lýsti því svo hvernig aðrar goðsagnir hjá félaginu fengu slæma meðferð frá Ferguson. 

„Ferguson var ekki góður í mannlegum samskiptum og goðsagnir hjá félaginu fengu slæma meðferð. Ég var hjá félaginu þegar Bryan Robson fór og svo þegar Steve Bruce fór. Þeir voru magnaðir hjá United en þeir fengu ekki góða meðferð hjá sir Alex,“ sagði Roy Keane, hreinskilinn að vanda. 

mbl.is