Pogba og James ekki með gegn Rúnari og félögum

Daniel James verður ekki með United annað kvöld.
Daniel James verður ekki með United annað kvöld. AFP

Manchester United verður án öflugra leikmanna á Old Trafford annað kvöld þegar liðið tekur á móti Rúnari Má Sigurjónssyni og samherjum hans í Astana frá Kasakstan í 1. umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Walesverjinn Daniel James, sem hefur verið mjög sprækur með United í upphafi leiktíðar, er kominn á sjúkralistann og er ekki leikfær annað kvöld. Paul Pogba og Luke Shaw hafa ekki jafnað sig á meiðslum og verða sömuleiðis ekki með.

Jesse Lingard og Diogo Dalot hafa hins vegar jafnað sig og eru klárir slaginn.

Manchester United hefur tapað tveimur Evrópuleikjum í röð á heimavelli en liðið hefur aldrei í sögunni tapað þremur Evrópuleikjum í röð á Old Trafford.

mbl.is