Liverpool njósnaði um City

Manchester City og Liverpool eru tvö bestu lið Englands í …
Manchester City og Liverpool eru tvö bestu lið Englands í dag. AFP

Liverpool greiddi Manchester City eina milljón punda eftir samkomulag við Manchester-félagið sem hafði kvartað undan því að brotist hefði verið inn í tölvukerfi þess.

Þetta gerðist árið 2013 en hefur fyrst nú verið opinberað. Brotist var inn í tölvukerfi City sem hélt utan um þá leikmenn sem félagið hafði til skoðunar. Þrír útsendarar sem höfðu það starf að leita að efnilegum leikmönnum færðu sig úr starfi frá City til Liverpool. Ári síðar komu þessar ásakanir en talið er að þeir hafi enn haft aðgang að kerfinu.

Liverpool greiddi milljón punda í sáttagerð eins og fram hefur komið en málið fór ekki fyrir dómstóla. Bæði félögin hafa neitað að tjá sig um málið en bæði The Times og Sky Sports greina frá þessu.

mbl.is