„Hryggur og miður mín yfir United“

Hnuggnir leikmenn Manchester United eftir tapið í dag.
Hnuggnir leikmenn Manchester United eftir tapið í dag. AFP

Gömlu Manchester United-kempunni Roy Keane var svo sannarlega ekki skemmt eftir afleitt 2:0-tap liðsins gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

United var án nokkurra lykilleikmanna sökum meiðsla og heimamenn í West Ham nýttu sér það. Andriy Yarmolenko og Aaron Cresswell skoruðu mörkin í þægilegum sigri en Keane og José Mourinho, síðasti knattspyrnustjóri liðsins, ræddu frammistöðuna á Sky Sports eftir leik.

„Ég veit ekki hvar ég á að byrja,“ sagði Írinn hneykslaður, „ég er hryggur og miður mín yfir hversu lélegt United var.

Þú getur tapað fótboltaleik en allt við þetta lið; klunnalegt, engin gæði, engin ástríða, engir leiðtogar. Það er ógnvekjandi að hugsa til þess hversu lágt United hefur fallið.“

Mourinho, sem var rekinn frá United í desember á síðasta ári, var á sama máli. „Ég get ekki fundið neitt jákvætt við þennan leik,“ sagði Portúgalinn. „Við vorum lélegir á síðustu leiktíð en ég sé ekki að liðið sé betra núna.

Mér líkar ekki vel við þetta United-lið og þessi úrslit koma mér ekki á óvart.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert