Liverpool vann á Brúnni

Roberto Firmino fagnar marki sínu með hinum markaskorararanum, Trent Alexander-Arnold. …
Roberto Firmino fagnar marki sínu með hinum markaskorararanum, Trent Alexander-Arnold. Sadio Mané í forgrunni. AFP

Liverpool hefur enn fullt hús stiga og vann sinn sjötta leik í röð í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessari leiktíð er liðið heimsótti Chelsea á Stamford Bridge í Lundúnum þar sem lokatölur urðu 2:1. Trent Alexander-Arnold og Roberto Firmino skoruðu mörk Bítlaborgarliðsins en Frakkinn N'Golo Kanté mark Chelsea.

Liverpool hefur nú unnið samanlagt fimmtán leiki í röð ef leikir síðustu leiktíðar eru reiknaðir með. Liðið hefur fimm stiga forskot á Manchester City í 2. sæti. Chelsea hefur átta stig í 11. sæti.

Eftir rólegar fyrstu mínútur fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan teigs á 14. mínútu. Egyptinn Mohamed Sala tók spyrnuna og renndi knettinum aftur fyrir sig á Trent Alexander Arnold sem þrumaði knettinum í vinkilinn fjær og kom Liverpool í 1:0.

Trent Alexander-Arnold kemur Liverpool í 1:0.
Trent Alexander-Arnold kemur Liverpool í 1:0. AFP

Á 24. mínutu virtist Chelsea hafa jafnað metin er César Azpilicueta, fyrirliði liðsins, kom knettinum í netið eftir mikinn darraðardans í teig Liverpool. Atvikið var aftur á móti skoðað í myndbandsdómgæslu, VAR, og dæmt ógilt þar sem Mason Mount var naumlega rangstæður í aðdraganda marksins.

Hlutirnir voru hins veagr fljótir að gerast og aðeins sex mínútum síðar skoraði Brasilíumaðurinn Roberto Firmino annað mark toppliðsins með skalla, einn á auðum sjó, eftir sendingu frá Andrew Robertson, 2:0, og þannig var staðan í hálfleik.

Á 70. mínútu kom Frakkinn N'Golo Kanté, sem var í fyrsta skipti í byrjunarliði Chelsea frá 18. ágúst, Chelsea í 2:1 með smekklegu marki. Hann fékk að valsa um tiltölulega óáreittur fyrir framan teig Liverpool og smellti boltanum innan fótar upp í vinkilinn nær, 2:1, og leikurinn orðinn spennandi á ný.

N'Golo Kante fór auðveldlega framhjá Fabinho í aðdraganda marks síns.
N'Golo Kante fór auðveldlega framhjá Fabinho í aðdraganda marks síns. AFP

Síðustu 20 mínúturnar voru afar spennandi þar sem Chelsea-menn voru nánast alfarið með boltann. Liðið gerði hvað það gat til þess að stöðva sigurgöngu Liverpool. Michy Batshuayi og Mason Mount fengu báðir góð færi eftir sofandahátt í öftustu varnarlínu Liverpool sem hélt aftur á móti út og lokatölur 2:1.

Chelsea 1:2 Liverpool opna loka
90. mín. Mason Mount (Chelsea) á skot framhjá Matip og van Dijk trekk í trekk að gleyma sér. Stálheppnir að Mount skyldi ekki hitta rammann þarna á milli þeirra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert