Sér ekkert jákvætt við lið United

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, sér ekki neitt jákvætt við lið United en hann sá Manchester United tapa verðskuldað fyrir West Ham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

„Við vorum lélegir á síðasta tímabili en ég sé engar framfarir á þessu tímabili jafnvel þótt þrír leikmenn hafi bæst í hópinn. Ég sé ekkert jákvætt í leik Manchester United,“ sagði Mourinho á Sky Sports eftir tap United á ólympíuleikvanginum í London í dag en hann var rekinn úr starfi stjóra hjá Manchester-liðinu í desember á síðasta ári.

„Sem lið þá er lið United ekki með þetta. Ég var ekkert hissa á þessu tapi og ég held að Ole Gunnar geti ekki tekið neitt jákvætt út úr þessum leik sinna manna,“ sagði Mourinho.

Manchester United er í áttunda sæti deildarinnar með átta stig eftir sex leiki en næsti leikur liðsins er á Old Trafford gegn Arsenal annan mánudag.

mbl.is