Alisson og Salah klárir í slaginn gegn United

Alisson er orðinn heill heilsu.
Alisson er orðinn heill heilsu. AFP

Brasilíski markvörðurinn Alisson og egypski sóknarmaðurinn Mohamed Salah verða klárir í slaginn með Liverpool á sunnudaginn þegar liðið mætir erkifjendum sínum í Manchester United á Old Trafford.

Alisson hefur verið frá keppni síðustu níu vikurnar eftir að hafa meiðst í leik gegn Norwich í fyrstu umferðinni. Hann byrjaði að æfa með liðinu í síðustu viku og enskir fjölmiðlar greina frá því að Brasilíumaðurinn sé tilbúinn að taka stöðu Adríans, sem hefur staðið sig vel í markinu.

Þá er Salah heill heilsu en hann fékk högg á ökklann í leiknum gegn Leicester fyrir tíu dögum. Honum varð ekki meint af því og Egyptinn verður á sínum stað gegn United.

Liverpool hefur unnið alla átta leiki sína og er með átta stiga forskot á Englandsmeistara Manchester City í toppsæti deildarinnar. Manchester United hefur hins vegar verið í miklu basli. Liðið er í tólfta sæti og er aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

mbl.is