Haraldur Noregskonungur sérstakur gestur Solskjærs á Old Trafford

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt Haraldi Noregskonungi.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt Haraldi Noregskonungi. AFP

Sérstakur gestur Ole Gunnars Solskjærs, stjóra Manchester United, á leik liðsins gegn Liverpool á Old Trafford á sunnudaginn verður Haraldur Noregskonungur en frá þessu greinir norska blaðið Verdens Gang.

Manchester United staðfestir við Verdens Gang að Haraldur muni hitta Solskjær eftir leikinn en þegar konungurinn heimsótti London árið 2005 upplýsti hann að Tottenham væri hans uppáhaldslið í ensku knattspyrnunni.

Þegar Solskjær fékk starfið hjá Manchester United í desember á síðasta árið notaði Haraldur tækifærið í ríkisheimsókn í Síle til tjá sig um ráðninguna. Hann sagði þá í samtali við NTB;

„Þetta er virkilega áhrifamikið og ég vona af öllu hjarta að honum takist vel upp.“

Haraldur Noregskonungur mætir á Old Trafford á sunnudaginn á tíma sem Solskjær er undir mikilli pressu en fyrir leikinn er United í tólfta sæti deildarinnar og er aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

mbl.is