Held að það þurfi eitthvert kraftaverk til að það gerist

Manchester United tekur á móti Liverpool í sannkölluðum stórleik á …
Manchester United tekur á móti Liverpool í sannkölluðum stórleik á sunnudaginn. AFP

Ef allt fer á versta veg fyrir Manchester United í 9. umferð ensku úrvalsdeildarinnar getur liðið verið komið í fallsæti eftir síðasta leik umferðarinnar sem verður viðureign Sheffield United og Arsenal á mánudagskvöldið.

Manchester United er í tólfta sæti deildarinnar og er aðeins tveimur stigum frá fallsæti en United tekur á móti toppliði Liverpool á Old Trafford á sunnudaginn.

„Ég held að það þurfi eitthvert kraftaverk til að það gerist,“ segir Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United, í viðtalið á BBC.

„United þarf að byrja að vinna leiki. Það er í lagi að segja að við gefum Ole tíma en ef hann fer ekki að ná í úrslit fara menn að verða óþolinmóðir. Ég vona að honum verði gefinn tími. Hann náði í þrjá góða leikmenn í sumar og nú þarf hann að fá leikmenn sem hann telur að séu nógu góðir til að koma United aftur á toppinn,“ segir Scholes

Liverpool getur jafnað met Manchester City með því að vinna 18. leikinn í röð í deildinni og takist Liverpool að leggja erkifjendur sína verður það fyrsti sigur liðsins á Old Trafford í fimm ár.

„Liverpool missti af stóru tækifæri til að vinna á Old Trafford á síðsta tímabili. Ég held að þú getir haldið því fram að Liverpool hafi klúðrað deildinni á Old Traffrod í fyrra en liðið var mjög slakt í þeim leik. Við vitum hvaða gæði Liverpool hefur og hversu gott liðið er en það verður að koma á Old Trafford og sanna að það geti unnið leik þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert