Tekst Gylfa að brjóta ísinn?

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Það er mikil pressa á Gylfa Þór Sigurðssyni, samherjum hans og ekki síst stjóranum Marco Silva fyrir leik Everton og West Ham, sem eigast við í fyrsta leiknum í 9. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Goodison Park í hádeginu á morgun.

Eftir fjóra tapleiki í röð í deildinni er Everton í fallsæti en liðið er í þriðja neðsta sæti með 7 stig en West Ham er áttunda sætinu með 12 stig.

Tapi Everton á morgun verður það í fyrsta skipti í 14 ár sem liðið tapar fimm deildarleikjum í röð en liðinu hefur gengið afar illa að skora mörk. Everton hefur aðeins náð að skora sex mörk í fyrstu átta leikjum sínum í deildinni.

Gylfi Þór Sigurðsson er til að mynda enn ekki kominn á blað í deildinni en hann skoraði 13 mörk fyrir Everton í deildinni á síðustu leiktíð. Eina mark Gylfa fyrir Everton á leiktíðinni kom úr vítaspyrnu gegn Lincoln City í 2. umferð ensku deildabikarkeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert