Arsenal getur barist um titilinn í vetur

David Luiz
David Luiz AFP

Varnarmaðurinn David Luiz segir Arsenal geta barist um enska meistaratitilinn í úrvalsdeildinni í vetur en honum finnst liðið verða betra og betra undir stjórn Unai Emery.

Arsenal hefur ekki orðið meistari síðan liðið fór ósigrað í gegnum deildina tímabilið 2003 til 2004 undir stjórn Arsene Wenger og hefur liðið aðeins tvisvar náð öðru sætinu síðan þá.

„Deildin er rétt að byrja og ef þú trúir því ekki að þú getir unnið hana þá geturðu alveg eins sleppt því að byrja,“ sagði Brasilíumaðurinn við NBC Sports en hann gekk til liðs við Arsenal í sumar frá Chelsea.

„Ég vil vinna titla með Arsenal og bæta sjálfan mig sem leikmann sem og liðið. Við erum stanslaust að bæta okkur og með þessa leikmenn og þennan þjálfara þá getum við barist um titilinn, ég tel að þetta félagið eigi skilið að ná árangri aftur.“

Arsenal er í þriðja sæti deildarinnar eins og er, einu stigi á eftir Englandsmeisturum Manchester City en níu stigum á eftir toppliði Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert