Tilbúinn að lækka launakröfur sínar

Mario Mandzukic fær ekkert að spila hjá Juventus þessa dagana.
Mario Mandzukic fær ekkert að spila hjá Juventus þessa dagana. AFP

Króatíski knattspyrnumaðurinn Mario Mandzukic hefur verið sterklega orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United að undanförnu. Mandzukic er samningsbundinn Juventus á Ítalíu en hann er úti í kuldanum hjá Maurizio Sarri, stjóra liðsins, og fær því lítið sem ekkert að spila.

Enskir fjölmiðlar greindu frá því í byrjun mánaðarins að króatíski framherjinn hefði gert munnlegt samkomulag við forráðamenn United um að ganga til liðs við félagið þegar janúarglugginn verður opnaður. Fjölmiðlar á Englandi greina nú frá því að Mandzukic sé nú tilbúinn að lækka launakröfur sínar umtalsvert.

Króatinn vildi í fyrstu fá í kringum 300.000 pund á viku í laun en hann er að þéna um 200.000 pund á viku hjá Juventus og er á meðal launahæstu leikmanna liðsins. Hann er hins vegar sagður tilbúinn að sætta sig við 150.000 pund á viku ef hann kemst til United í janúar en enska félagið þarf að borga 8 milljónir punda fyrir leikmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert