Þegar Guðjón mölbraut úrið í klefanum - borinn saman við Klopp

Guðjón Þórðarson á Britannia Stadium, heimavelli Stoke City.
Guðjón Þórðarson á Britannia Stadium, heimavelli Stoke City. mbl.is/RAX

Um þessa helgi eru tuttugu ár síðan íslenskir kaupsýslumenn keyptu enska knattspyrnufélagið Stoke City, í byrjun nóvember árið 1999, og með Guðjón Þórðarson við stjórnvölinn komu þeir því upp í B-deildina þar í landi hálfu þriðja ári síðar.

Staðarmiðillinn Stoke Sentinel hefur fjallað ítarlega um þessi tímamót að undanförnu og hvernig Íslendingarnir náðu að snúa blaðinu við hjá þessu gamalkunna félagi sem þá var í miklum vandræðum í ensku C-deildinni.

Meðal annars hefur verið birt viðtal við Peter Thorne, framherja Stoke-liðsins fyrstu árin eftir kaupin en hann skoraði 47 mörk í 89 leikjum fyrir liðið og segir að það hafi verið frábært að spila undir stjórn Guðjóns.

„Hann var algjör brjálæðingur. Á jákvæðan hátt, á ég við. Ég dáði hann! Hann er ástríðufyllsti knattspyrnustjórinn sem ég spilaði nokkurn tíma fyrir.

Þegar hann reiddist gekk hann berserksgang. Ég man eftir einu leikhléinu, þegar við höfðum spilað hörmulega í fyrri hálfleik, að hann reif af sér úrið og grýtti því af öllu afli í vegginn á búningsklefanum. Það brotnaði í þúsund mola! En hann gat verið bráðskemmtilegur, hann faðmaði mann og fyllti sjálfstrausti. Hann minnir mig á nútíma þjálfara á borð við Jürgen Klopp. Þetta eru stjórar sem geta alltaf brosað en ná jafnframt alltaf því besta út úr sínum liðum," sagði Peter Thorne um Guðjón Þórðarson við Stoke Sentinel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert