Fyrirliðabandið tekið af Xhaka

Granit Xhaka er ekki lengur fyrirliði Arsenal.
Granit Xhaka er ekki lengur fyrirliði Arsenal. AFP

Svisslendingurinn Granit Xhaka er ekki lengur fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Arsenal. Pierre-Emerick Aubameyang tekur við bandinu af miðjumanninum. 

Xhaka brást illa við bauli stuðningsmanna Arsenal er hann var tekinn af velli í 2:2-jafntefli við Crystal Palace á dögunum og blótaði þeim í sand og ösku er hann gekk af velli. Strunsaði hann svo beint til búningsklefa. 

Xhaka útskýrði viðbrögð sín í opnu bréfi til stuðningsmanna skömmu síðar. Þar lýsti Xhaka þeim hótunum sem hann og fjölskylda hans hafa orðið fyrir. 

Svisslenski landsliðsmaðurinn var ekki með Arsenal gegn Wolves um helgina og verður hann ekki með liðinu gegn Vitoria í Evrópudeildinni á morgun. Aubameyang spilar heldur ekki gegn Vitoria og tekur Hector Bellerín væntanlega við bandinu í fjarveru hans. 

mbl.is