Hafa verið mjög erfiðir dagar

Son Heung-min sendi frá sér hjarta eftir að hafa skorað …
Son Heung-min sendi frá sér hjarta eftir að hafa skorað í Meistaradeildinni í gær. AFP

Son Heung-min segir að síðustu dagar hafi verið mjög erfiðir en hann var algjörlega í öngum sínum eftir að brot hans á Andre Gomes leiddi til þess að Portúgalinn ökklabrotnaði með hryllilegum hætti í leik Tottenham og Everton á sunnudag.

Son fékk rautt spjald fyrir tæklinguna sína en það var svo dregið til baka eftir kæru Tottenham, enda var tæklingin ein og sér ekki gróf þó að afleiðingarnar yrðu miklar. Son felldi tár og liðsfélagar hans og knattspyrnustjóri sögðu hann hafa verið óhuggandi inni í búningsklefa eftir leik. Son var mættur aftur til leiks í gær þegar Tottenham vann 4:0-sigur á Rauðu stjörnunni frá Belgrad, og hann skoraði tvisvar í leiknum.

„Þetta hafa verið mjög erfiðir dagar. En ég hef líka séð hvað ég er heppinn með allan þann stuðning sem ég hef fengið frá stuðningsmönnum og liðsfélögum mínum,“ sagði Son, sem fagnaði ekki fyrra marki sínu í gær heldur beygði sig og þakkaði fyrir sig.

„Ég get bara sagt að ég er afar leiður yfir því sem gerðist en ég varð að einbeita mér fyrir liðið mitt og halda áfram, og þetta var rétta svarið fyrir allt fólkið sem er búið að styðja mig,“ sagði Son.

Gomes sendi frá sér skilaboð á samfélagsmiðlum í gær og þakkaði fyrir stuðninginn sem hann hefur fengið. „Ég er þegar kominn heim til fjölskyldunnar minnar. Mig langar að þakka ykkur öllum fyrir hughreystandi skilaboð,“ sagði Gomes á Twitter.

mbl.is