Óhræddur gegn hnífamanninum (myndskeið)

Sead Kolasinac í leik með Arsenal í vetur.
Sead Kolasinac í leik með Arsenal í vetur. AFP

Lögreglan í Lundúnum hefur birt myndskeið þar sem sjá má þegar tveir menn ætluðu sér að ræna úrum af tveimur leikmönnum Arsenal, vopnaðir hnífi.

Þeir Jordan Northover og Ashley Smith hafa nú báðir játað sök í málinu en þeir ætluðu sér að ræna þá Sead Kolasinac og Mesut Özil. Atvikið átti sér stað í norðvesturhluta Lundúna 25. júlí og myndbandsupptökur sýna hversu óhræddur Kolasinac var við að hrekja ræningjana á brott, þrátt fyrir að þeir otuðu að honum vopni, eins og sjá má á myndskeiðinu.

Özil lýsti árásinni í viðtali við The Athletic en hann óttaðist um líf konu sinnar, Amine.

„Þeir sögðu við hann [Kolasinac]; „Gefið okkur úrin ykkar.“ Sead sýndi afar mikið hugrekki því hann réðst að einum árásarmannanna. Við vorum nýgift og ég var hræddur um eiginkonu mína. Ég var hræddur um Sead. Ég sá eitt tækifæri til að keyra af stað. Ef þeir hefðu náð til konunnar minnar þá hefði eitthvað hræðilegt getað gerst. Ég byrjaði að keyra en þeir eltu. Ég keyrði mjög hratt en þeir nálguðust alltaf. Ég reyndi að færa bílinn, keyra í veg fyrir þá, flýja, en þeir voru alltaf þarna. Konan mín var frá sér af hræðslu,“ sagði Özil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert