Virðist vera með plan ― annað en sumir þjálfarar í deildinni (myndskeið)

Gengi Manchester United á leiktíðinni hefur verið upp og niður en lærisveinar Ole Gunnars Solskjærs fögnuðu 3:1 sigri gegn Brighton á Old Trafford í gær og komust með honum upp í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Tómas Þór Þórðarson, Bjarni Þór Viðarsson og Gylfi Einarsson ræddu um lið Manchester United í þættinum Völlurinn á Síminn Sport í gær og þá spjallaði Tómas Þór við þýska blaðamanninn Rap­hael Honig­stein, sem er höf­und­ur nýrr­ar bók­ar um Jür­gen Klopp, og spurði hann út í Ralf Rangnick, fyrrverandi þjálfara Stuttgart, Hannover, Schalke, Hoffenheim og nú síðast RB Leipzig, en hann hefur verið orðaður við Manchester United sem hugsanlegur yfirmaður knattspyrnumála eða stjóri.

„Það er komið meira sjálfstraust í liðið. Það hefur endurheimt menn úr meiðslum eins og Martial. En United þarf að ná nokkrum sigurleikjum í röð og ef það gerir það þá fer þetta að líta miklu betur út. Ég er ánægður að Solskjær sé að nota ungu strákana og hann virðist vera með plan  annað en sumir þjálfarar í deildinni,“ sagði Bjarni Þór meðal annars en alla umræðuna um United má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

Ole Gunnar Solskjær ræðir við Marcus Rashford.
Ole Gunnar Solskjær ræðir við Marcus Rashford. AFP
mbl.is