Sterling í agabann - slagsmál á æfingu

Raheem Sterling í leiknum á sunnudag.
Raheem Sterling í leiknum á sunnudag. AFP

Raheem Sterling mun ekki leika með enska landsliðinu í undankeppni EM 2020 á fimmtudaginn. Upp úr sauð á milli hans og Joe Gomez á æfingu landsliðsins í gær. 

Sterling og Gomez lenti saman í leik Manchester City og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag. Daginn eftir voru þeir mættir á landsliðsæfingu og ekki tók betra við. 

Ljóst er að atvikið hefur verið alvarlegt fyrst gripið hefur verið til þessara aðgerða. Enska knattspyrnusambandið sendi frá sér yfirlýsingu þar sem vitnað er í landsliðsþjálfarann Gareth Soutgate. 

„Því miður voru menn enn þá æstir eftir leikinn á sunnudag. Ein af okkar áskorunum og styrkleikum sem landsliðs er að geta sett til hliðar þann ríg sem verið getur á milli félagsliða. Við höfum tekið þá ákvörðun að Raheem Sterling verði ekki valinn í hópinn fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi á fimmtudaginn. Mín tilfinning er að sú ákvörðun sé heppilegust fyrir landsliðið. Nú þegar þessi ákvörðun hefur verið tekin með samþykki landsliðsmannanna er mikilvægt að fólk styðji við bakið á liðinu og að leikmenn einbeiti sér að leiknum,“ er haft eftir Southgate. 

Gareth Southgate.
Gareth Southgate. AFP
mbl.is