Vieira kemur Xhaka til varnar

Granit Xhaka hefur hugsanlega spilað sinn síðasta leik fyrir Arsenal.
Granit Xhaka hefur hugsanlega spilað sinn síðasta leik fyrir Arsenal. AFP

Patrick Vieira, fyrrverandi leikmaður Arsenal, kemur Granit Xhaka, núverandi leikmanni liðsins, til varnar. Xhaka var fyrirliði Arsenal, áður en hann lenti í ágreiningi við stuðningsmenn liðsins, í kjölfar þess að hann var tekinn af velli í leik gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á dögunum. 

Síðan þá hefur Xhaka ekki leikið með Arsenal og er líklegt að hann yfirgefi félagið í janúar. Vieira vill hins vegar að stuðningsmenn sýni Xhaka virðingu. 

„Ég finn til með honum. Hann var fyrirliðinn og nú er hann að ganga í gegnum erfiða tíma hjá Arsenal. Við verðum að muna að hann hefur afrekað mikið síðan hann kom til Arsenal og á skilið virðingu. 

Leikmenn verða sjálfir pirraðir þegar þeir ná ekki sínu besta fram og stundum segir þú eða gerir hluti sem þú sérð eftir. Það er mjög leiðinlegt að gamlir atvinnumenn gagnrýna hann. Ég veit hversu góður hann er og ég veit hann kemur sterkur til baka,“ sagði Viera við Sky Sports. 

mbl.is