Chelsea vann kapphlaupið um Kerr

Sam Kerr í búningi Chelsea.
Sam Kerr í búningi Chelsea. Ljósmynd/Twitter-síða Chelsea

Samantha Kerr, besta knattspyrnukona Ástralíu, skrifaði í dag undir tveggja og hálfs árs samning við enska liðið Chelsea og gengur í raðir þess í janúar.

Kerr er 26 ára gömul og skoraði fimm mörk með ástralska landsliðinu á HM í sumar þar sem Ástralía komst í 16-liða úrslit mótsins.

Hún kemur til Chelsea frá bandaríska liðinu Chicago Red Stars þar sem hún skoraði 34 mörk í 40 leikjum eftir að hafa skorað 28 mörk í 40 leikjum með Sky Blu. Engin hefur skorað fleiri mörk í bandarísku og áströlsku deildinni heldur en Kerr.

Ástralska blaðið Sydney Morning Herald segir að Evrópumeistarar Lyon, Bayern München og Real Madrid hafi öll sóst eftir kröftum Kerr en Chelsea varð fyrir valinu. Blaðið segir að hún muni fá 467 þúsund pund í laun á ári fyrir utan bónsgreiðslur en sú upphæð jafngildir um 75 milljónum króna.

Norska landsliðskonan María Þórisdóttir leikur með Chelsea en hún er dóttir Selfyssingsins Þóris Hergeirssonar sem hefur gert það gott sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta til margra ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert