Grínaðist með að fótbrjóta Sterling

Raheem Sterling verður væntanlega í byrjunarliði Englands á morgun.
Raheem Sterling verður væntanlega í byrjunarliði Englands á morgun. AFP

Bernard Challandes, landsliðsþjálfari Kósóvó, grínaðist með á blaðamannafundi í gær að eina leiðin til að stoppa Raheem Sterling, leikmann Manchester City og enska landsliðsins, væri að fótbrjóta hann.

Kósóvó og England mætast í Pristina í undankeppni EM í fótbolta á morgun og verður Sterling í byrjunarliði enska liðsins. Sterling var tekinn úr liðinu fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi eftir erjur við Joe Gomez, leikmann Liverpool. 

„Það eru slæmar fréttir fyrir okkur að Sterling verði með. Hann er einn sá besti í heimi í sinni stöðu og við réðum illa við hann í fyrri leiknum. Við ráðum ekki við hann einn á einn, við verðum að stoppa hann sem lið.

Stundum er eina leiðin til að stoppa Sterling að fótbrjóta hann. En við erum allt of almennilegir til þess,“ sagði Challandes. 

England hefur þegar tryggt sér sæti á EM á meðan Kósóvó er að öllum líkindum á leiðinni í umspil. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert