Fleiri munu komast á Anfield

Anfield rúmar um 54 þúsund manns í dag.
Anfield rúmar um 54 þúsund manns í dag. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hyggst stækka leikvang sinn, Anfield, þannig að hann muni í framtíðinni rúma um 60 þúsund áhorfendur. BBC greinir frá þessu.

Eftir síðustu breytingar á vellinum rúmar hann 54 þúsund manns en nýjasti hluti hans var tekinn í notkun árið 2016. Fram að því komust 45 þúsund áhorfendur á heimaleiki liðsins sem er nú ríkjandi Evrópumeistari og með átta stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Félagið hefur kynnt fyrirætlanir sínar og hefur boðið íbúum borgarinnar að skoða þær næstu daga og vikur, m.a. fyrir tvo næstu heimaleiki sem eru gegn Brighton 30. nóvember og Everton 4. desember.

Anfield er 135 ára gamall leikvangur, tekinn í notkun árið 1884 og var heimavöllur Everton fyrstu átta árin en Liverpool hefur haft þar aðsetur frá árinu 1892. Hann tók fyrst 20 þúsund manns en var endurbyggður árið 1928 og þá komust 30 þúsund manns þar fyrir.

Vallarmetið á Anfield eru 61.905 áhorfendur á leik Liverpool og Wolves árið 1952 en á þeim árum var að sjálfsögðu um stæði að ræða. Eftir endurbætur á vellinum á síðustu þremur áratugum tuttugustu aldarinnar voru sæti fyrir 45 þúsund manns á Anfield.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert