Síðasti séns hjá stjóra Gylfa?

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar mæta Leicester í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar mæta Leicester í dag. AFP

Fjórir leikir eru á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans hjá Everton heimsækja Leicester klukkan 16:30. Takist Everton ekki að ná í góð úrslit gæti verið um síðasta leik Marcos Silva sem knattspyrnustjóra liðsins að ræða. 

Everton tapaði fyrir Norwich í síðustu umferð og er aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. Fyrir tímabilið gerðu menn sér vonir um að Everton yrði í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu og hefur tímabilið því verið mikil vonbrigði til þessa. 

Leicester er á sama tíma að blómstra og er í þriðja sæti með 29 stig. Með sigri í dag fer Leicester upp í annað sætið, en liðið hefur unnið fimm síðustu leiki sína í deildinni. Virðist Leicester ætla að vera helsti keppinautur Liverpool um enska meistaratitilinn. 

Á sama tíma mætast Manchester United og Aston Villa á Old Trafford. Villa er aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsætin og er þetta leikur sem lærisveinar Oles Gunnars Solskjær verða hreinlega að vinna ætli liðið sér að ná einhvers konar árangri á tímabilinu. 

Tveir leikir eru klukkan 14. Annars vegar mætast Norwich og Arsenal á Carrow Road og hins vegar Wolves og Sheffield í Wolverhampton. Freddie Ljungberg stýrir Arsenal eftir brottrekstur Unai Emery í vikunni. Arsenal hefur ekki unnið í sjö síðustu leikjum og er um miðja deild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert