Velur Leicester fram yfir Arsenal

Brendan Rodgers hefur ekki áhuga á stjórastarfinu hjá Arsenal.
Brendan Rodgers hefur ekki áhuga á stjórastarfinu hjá Arsenal. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester, hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Arsenal að undanförnu. Unai Emery, fyrrverandi knattspyrnustjóri liðsins, var rekinn frá félaginu á föstudaginn var en liðið hefur ekki farið neitt frábærlega af stað í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og er í áttunda sæti deildarinnar með 19 stig eftir fjórtán fyrstu leiki sína.

Rodgers hefur gert frábæra hluti með Leicester sem er í öðru sæti deildarinnar með 32 stig. „Ég hef ekki áhuga á stjórastöðunni hjá Arsenal,“ sagði Rodgers í samtali við enska fjölmiðla. „Ég á fastlega von á því að fá þessa spurningu mjög reglulega þangað til Arsenal ræður nýjan stjóra en þetta er mjög einfalt fyrir mér, ég er mjög ánægður í Leicester.“

„Ég tók stóra ákvörðun þegar ég kom hingað fyrst. Ég vildi hjálpa félaginu að taka næsta skref og ég sá mikinn möguleika í leikmannahóp liðsins. Af hverju ætti ég að vilja fara eitthvað annað? Fólk horfir kannski á Arsenal og stærð félagsins en fyrir mér snýst þetta bara um starfsgleðina og ég er hrikalega ánægður þar sem ég er núna.“

„Ég er samningsbundinn Leicester til ársins 2022 og félagið hefur ekki gefið það til kynna að það vilji losna við mig. Það verða alltaf sögusagnir í gangi um það að hinn og þessi sé að fara að taka við hinu og þessu liði. Þið getið skrifað það sem þið viljið en ég ítreka að ég er ánægður í Leicester og vel starf mitt hér fram yfir Arsenal,“ bætti Rodgers við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert