Verri árangur hjá Solskjær en Mourinho?

Ole Gunnar Solskjær hefur aðeins fagnað fjórum sigrum í fjórtán …
Ole Gunnar Solskjær hefur aðeins fagnað fjórum sigrum í fjórtán leikjum í deildinni. AFP

Manchester United heldur áfram að „bæta neikvæðu metin“ sín í enska fótboltanum en eftir jafnteflið gegn Aston Villa á Old Trafford í gær er liðið með 18 stig í níunda sæti og hefur aðeins unnið fjóra af fyrstu fjórtán leikjum sínum í úrvalsdeildinni.

Þessi úrslit þýða að byrjunin á tímabilinu er orðin sú versta hjá United í 31 ár, eða frá haustinu 1988 en þann vetur hafnaði liðið í ellefta sæti deildarinnar.

Það var þriðja tímabil liðsins undir stjórn Alex Fergusons sem átti heldur betur eftir að rétta félagið af og skila því 13 meistaratitlum á 21 ári en þann fyrsta vann hann með liðinu vorið 1993.

Þegar José Mourinho var rekinn úr starfi eftir 17 umferðir í desember 2018 var liðið komið með 26 stig. Ole Gunnar Solskjær þarf því að ná þremur sigrum í næstu þremur leikjum til að ná sama árangri og forveri hans var með við brotthvarf sitt frá félaginu.

Solskjær og Mourinho mætast einmitt á miðvikudagskvöldið en þá tekur Manchester United á móti Tottenham í 15. umferð deildarinnar. Mourinho sneri aftur  til starfa í síðasta mánuði eftir brottreksturinn frá United og Tottenham hefur unnið fyrstu þrjá leiki sína undir hans stjórn.

mbl.is