Solskjær segir hegðunina óafsakanlega

Ole Gunnar Solskjær dansar við Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City …
Ole Gunnar Solskjær dansar við Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City í kvöld. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var kátur eftir 2:1-sigur á Manchester City í grannaslag í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Marcus Rashford og Anthony Martial skoruðu mörk United í fyrri hálfleik, áður en Nicolas Otamendi minnkaði muninn undir lokin. 

„Uppleggið gekk fullkomlega, en þetta var erfiður leikur á móti nokkrum af bestu leikmönnum heims. Aaron Wan-Bissaka átti sinn besta leik síðan hann kom í félagið. Við vörðumst mjög vel, svo það voru vonbrigði að fá mark á okkur eftir horn, en ég get ekki kvartað mikið.“

Solskjær var spurður út í stuðningsmann Manchester City, sem náðist á myndband beita Fred og Jesse Lingard kynþáttaníði. 

„Ég hef séð myndbandið. Jesse (Lingard) og Fred lentu í þessu og þessi maður hlýtur að skammast sín. Þetta er óafsakanleg hegðun og ég vona að hann fái ekki að horfa á fótbolta framar,“ sagði Norðmaðurinn.  

mbl.is