Gæti stýrt Gylfa gegn United

Vítor Pereira, til hægri, fyrir leik í kínversku úrvalsdeildinni í …
Vítor Pereira, til hægri, fyrir leik í kínversku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Everton vill ganga frá ráðningu knattspyrnustjórans Vítors Pereira, áður en liðið mætir Manchester United næsta sunnudag. Viðræður á milli Pereira og Everton hafa staðið yfir síðustu vikuna, eftir að Marco Silva fékk reisupassann. 

Everton er reiðubúið að bjóða Pereira þriggja ára samning, en núverandi félag Pereira, Shanghai SIPG í Kína, hefur boðið honum nýjan samning á ótrúlegum launum. Everton getur hvergi nærri boðið eins há laun og kínverska félagið. Þrátt fyrir það gæti Pereira freistast til að samþykkja tilboð Everton til að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni. 

Sky greinir frá því að Pereira hafi enn ekki ferðast til Englands og að fjölskylda Portúgalans sé til í að vera í Kína í að minnsta kosti eitt ár til viðbótar. Duncan Ferguson hefur stýrt Everton síðan Silva var rekinn og vann liðið 3:1-sigur á Chelsea síðasta laugardag, undir stjórn Skotans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert