Tveggja mánaða bið Arsenal loks á enda

Nicolas Pépé skoraði fallegt mark í langþráðum sigri.
Nicolas Pépé skoraði fallegt mark í langþráðum sigri. AFP

Arsenal vann sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni síðan í október er liðið hafði betur gegn West Ham á útivelli í kvöld, 3:1. West Ham var verðskuldað með 1:0-forystu í hálfleik, en Arsenal var sterkari aðilinn í seinni hálfleik. 

Angelo Ogbonna kom West Ham verðskuldað yfir á 38. mínútu og þurfti David Martin í marki liðsins lítið að gera. Arsenal skapaði varla neitt og hefði West Ham getað skorað fleiri mörk. 

West Ham byrjaði betur í seinni hálfleik en jöfnunarmark Gabriel Martinelli á 60. mínútu breytti gangi leiksins töluvert. Brasilíumaðurinn, sem er aðeins 18 ára, kláraði þá glæsilega eftir undirbúning hjá Sead Kolasinac. 

Sex mínútum síðar kom Nicolas Pépé Arsenal í 2:1 með fallegu skoti upp í vinkilinn og á 69. mínútu skoraði Pierre-Emerick Aubameyang þriðja mark Arsenal og gulltryggði liðinu sigur. Arsenal er í níunda sæti með 22 stig, en West Ham er í 16. sæti með 16 stig. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

West Ham 1:3 Arsenal opna loka
90. mín. Það verða sjö mínútur í uppbótartíma.
mbl.is