Klopp vill pakka miðvörðunum í bómull

Dejan Lovren spilar ekki á næstunni með Liverpool.
Dejan Lovren spilar ekki á næstunni með Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti á fréttamannafundi í dag að miðvörðurinn Dejan Lovren myndi ekki spila með liðinu gegn Watford á morgun og yrði líklega lengur frá keppni.

Lovren fór meiddur af velli í fyrri hálfleik gegn Salzburg á þriðjudagskvöldið, í annað sinn á skömmum tíma, og Klopp sagði að í þetta sinn væri um tognun að ræða og því yrði fjarvera hans lengri.

Þar með eru Joe Gomez og Virgil van Dijk einir eftir í miðvarðastöðunum því Joel Matip er hefur verið frá keppni undanfarnar vikur og spilar ekki fyrr en eftir áramót. Fabinho hefur hlaupið í skarðið sem miðvörður en hann er líka úr leik vegna meiðsla næstu vikurnar.

„Við erum því með tvo sem stendur, við þyrftum að passa þá vel, pakka þeim inn í bómull og spyrja þá hvað þeir vilja gera á æfingunum! En við verðum þá að vera skapandi í hugsun og svo erum við líka með strákana tvo, Ki-Jana Hoever og Sepp van den Berg, sem og varnarsinnaða miðjumenn. Það er hægt að beita mismunandi leikaðferðum til að stilla upp annarskonar varnarmönnum en venjulega. Svona er þetta, ég er með fullt af hugmyndum en vonast til þess, satt best að segja, að þurfa ekki að grípa til þeirra,“ sagði Jürgen Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka