Gylfi lék allan leikinn í sigri - United fór illa með Norwich

Richarlison tryggði Everton sigur gegn Brighton.
Richarlison tryggði Everton sigur gegn Brighton. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton sem vann afar mikilvægan heimasigur gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park í Liverpool í dag. Leiknum lauk með 1:0-sigri Everton en það var Richarlison sem skoraði sigurmark leiksins á 38. mínútu. Gylfi Þór lék allan leikinn fyrir Everton sem fer með sigrinum upp í ellefta sæti deildarinnar í 28 stig. Brighton er hins vegar í fjórtánda sætinu með 24 stig.

Þá fór Manchester United á kostum gegn botnliði Norwich á Old Trafford í Manchester en United vann öruggan 4:0-sigur. Marcus Rashford kom United yfir á 27. mínútu og United leiddi því með einu marki í hálfleik. Rashford bætti við öðru marki United úr vítaspyrnu á 52. mínútu og Anthnony Martial skoraði þriðja markið, tveimur mínútum síðar.

Mason Greenwood innsiglaði svo sigur United á 76. mínútu, nýkominn inn á sem varamaður og þar við sat. United fer með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar og upp fyrir Sheffield United sem er í sjötta sætinu með 32 stig. Norwich er hins vegar áfram í neðsta sæti deildarinnar með 14 stig, sjö stigum frá öruggu sæti.

Danny Ings tryggði Southampton afar óvæntan 2:1-útisigur gegn Leicester í Leicester. Dennis Praet kom Leicester yfir á 14. mínútu en Stuart Armstrong jafnaði metin, fimm mínútum síðar. Ings skoraði svo sigurmark leiksins á 81. mínútu en Southampton fer með sigrinum upp í tólfta sæti deildarinnar í 25 stig og er nú fimm stigum frá fallsæti. Leicester er áfram í öðru sætinu með 45 stig.

Chelsea styrkti stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar með 3:0-sigri gegn Burnley á Stamford Bridge þar sem þeir Jorginho, Tammy Abraham og Callum Hudson Odoi skoruðu mörk Chelsea. Chelsea er áfram í fjórða sæti deildarinnar með 39 stig en Burnley er í fimmtánda sætinu með 24 stig. Þá gerðu Wolves og Newcastle 1:1-jafntefli í Wolverhampton en Wolves er í sjöunda sæti deildarinnar með 31 stig og Newcastle í því þrettánda með 26 stig.

Chelsea 3:0 Burnley
Jorginho 27., Abraham 38., Hudson-Odoi 49.

Everton 1:0 Brighton
Richarlison 37.

Leicester 1:2 Southampton
Praet 14. - Armstrong 19., Ings 81.

Manchester United 4:0 Norwich
Rashford 27., 52 (víti)., Martial 54., Greenwood 76.

Wolves 1:1 Newcastle
Dendoncker 14. - Almirón 7.

Marcus Rashford og Anthony Martial voru báðir á skotskónum hjá …
Marcus Rashford og Anthony Martial voru báðir á skotskónum hjá Manchester United í dag. AFP
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Enski boltinn í beinni opna loka
kl. 16:55 Leik lokið Þá er öllum leikjum dagsins, sem hófust klukkan 15, lokið.
mbl.is