Pep tók upp hanskann fyrir Klopp

Jürgen Klopp og Pep Guardiola eiga það til að vera …
Jürgen Klopp og Pep Guardiola eiga það til að vera sammála um ákveðna hluti tengda enska boltanum. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, tók upp hanskann fyrir kollega sinn Jürgen Klopp hjá Liverpool á blaðamannafundi í dag. Guardiola var þá spurður út í þá ákvörðun Klopp að ætla að tefla fram U23 ára liði Liverpool gegn Shrewsbury í öðrum leik liðanna í 4. umferð ensku bikarkeppninnar á Anfield 4. febrúar næstkomandi.

„Við fáum ákveðið leikjaplan og okkur er gert að fylgja því,“ sagði Guardiola á blaðamannafundinum í dag. „Við höfum spilað leiki hér í þessu landi á tveggja til þriggja daga fresti undanfarna mánuði. Það er hins vegar ekki hlutverk ykkar né mótastjóra að segja knattspyrnustjórum hvernig þeir eiga að stilla upp liðinu sínu.“

„Það er okkar hlutverk að stilla upp liðinu og liðið okkar mun alltaf mæta til leiks, sama hvað. Í guðanna bænum ekki fara að segja okkur hvaða leikmenn við megum velja eða ekki velja,“ bætti spænski stjórinn við. Klopp hefur verið harðlega gagnrýndur í vikunni, en hann verður ekki sjálfur á Anfield á umræddum leikdegi heldur Neil Critchley, þjálfari unglingaliðs Liverpool.

mbl.is