Salah ekki með í byrjun næsta tímabils?

Mohamed Salah er landsliðsmaður Egyptalands.
Mohamed Salah er landsliðsmaður Egyptalands. AFP

Egypski framherjinn Mohamed Salah gæti misst af upphafi næsta keppnistímabils með Liverpool þar sem Egyptar hyggjast tefla honum fram á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.

Leikarnir hefjast 22. júlí og knattspyrnukeppninni lýkur laugardaginn 8. ágúst, sama dag og keppnistímabilið í ensku úrvalsdeildinni hefst. Salah myndi í það minnsta missa alveg af undirbúningstímabilinu og mögulega fyrstu leikjum í deildinni.

Á Ólympíuleikunum leika U23 ára lið en mega tefla fram þremur eldri leikmönnum. Shawky Gharib, þjálfari liðsins, sagði í viðtali við ON Sport TV í Egyptalandi að hann hafði í hyggju að velja Salah sem einn þessara þriggja.

Hann staðfesti í viðtalinu að hann ætti fyrir höndum viðræður við Salah um málið en leikmaðurinn myndi þó eiga lokaorðið og taka endanlega ákvörðun sjálfur um hvort hann gefi kost á  sér í verkefnið.

Útlit er fyrir að Salah verði, ásamt fleiri afrískum leikmönnum Liverpool, fjarverandi fyrstu fimm til sex vikur ársins 2021 því Afríkumótið fer fram í Kamerún dagana 9. janúar til 6. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert