Segir Henderson eiga að vera leikmann ársins

Jordan Henderson hefur verið afar góður á leiktíðinni.
Jordan Henderson hefur verið afar góður á leiktíðinni. AFP

Andy Robertson, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að liðsfélagi hans Jordan Henderson eigi skilið að vera kosinn besti leikmaður tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni. 

Henderson hefur átt stóran þátt í að Liverpool er með 22 stiga forskot á toppi deildarinnar og í kjörstöðu til að vinna fyrsta meistaratitil félagsins síðan 1990. Robertson hrósaði liðsfélaga sínum í hástert á blaðamannafundi í dag. 

„Hann á skilið að vera kosinn sá besti. Hann hefur ýtt okkur áfram í erfiðum leikjum og komið okkur yfir línuna. Hann hefur séð til þess að við slökum ekki á og einnig skorað mikilvæg mörk.

Hann hefur varla átt slæman leik. Maður fattar ekki hversu góður hann er fyrr en maður fer að æfa með honum. Hann er loksins að fá það hrós sem hann á skilið og hann er til algjörrar fyrirmyndar,“ sagði Robertson um liðsfélaga sinn. 

mbl.is