Gylfi Þór í sóttkví

Gylfi Þór Sigurðsson og liðsfélagar hans í Everton eru komnir …
Gylfi Þór Sigurðsson og liðsfélagar hans í Everton eru komnir í sóttkví. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni, er kominn í sóttkví eftir að leikmaður aðalliðs félagsins kvartaði undan einkennum vegna kórónuveirunnar. Leikmaðurinn sem fann fyrir sjúkdómseinkennum veirunnar hefur ekki verið nafngreindur en Everton sendi frá sér yfirlýsingu í morgun.

„Everton staðfestir hér með að félagið hefur gripið til varúðarráðstafana og sent alla leikmenn aðalliðs félagsins í sóttkví að læknisráði,“ segir í tilkynningu frá félaginu. „Leikmaður aðalliðsins kvartaði undan einkennum kórónuveirunnar og er félagið í reglulegu sambandi við leikmanninn vegna málsins,“ segir ennfremur á twittersíðu félagsins.

Þjálfarateymi félagsins er einnig í sóttkví og þá hefur heimavelli félagsins, sem og æfingasvæði Everton, verið lokað. Everton tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á mánudaginn kemur en það verður að teljast afar ólíklegt að leikurinn fari fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert