Liverpool 100% öruggt um meistaratitilinn

Leikmenn Liverpool fagna.
Leikmenn Liverpool fagna. AFP

Það verður einhver bið á því að Englandsmeistarar verði krýndir í knattspyrnu vegna kórónuveirunnar en flestum deildum í Evrópu hefur nú verið frestað vegna útbreiðslu hennar.

Enska boltanum hefur verið frestað til 30. apríl hið minnsta en nú þegar hafa verið spilaðar 29 af 38 umferðum í úrvalsdeildinni, sem þykir nóg til að spá um hvernig deildin gæti endað. Euro Club Index, tölfræðibanki fyrir knattspyrnu um allan heim, hefur með tölvuhermi sínum, sem líkir eftir raunverulegum aðstæðum, klárað tímabilið á Englandi hundrað þúsund sinnum til að segja fyrir um hvernig því gæti lokið.

Það er BBC sem fjallar um niðurstöðurnar og kemur þar fram að Liverpool, sem er nú þegar með 25 stiga forystu á toppi deildarinnar, verður meistari í 100% tilfella. Reynist líkanið rétt mun Liverpool einnig slá stigametið og enda með 102 stig, tveimur stigum meira en Manchester City gerði árið 2018.

City mun að öllum líkindum ekki taka þátt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð eftir að hafa verið úrskurðað í bann frá keppninni af UEFA. Það eru því Leicester, Chelsea og Manchester United sem eru líklegust til að fylgja Liverpool í keppnina á næstu leiktíð samkvæmt herminum.

Þá er Norwich svo gott sem fallið úr deildinni nú þegar, sex stigum frá öruggu sæti á botninum, og Aston Villa og Bournemouth, sem nú þegar eru í fallsætum, eru líkleg til að fylgja með niður í B-deildina.

mbl.is