Everton gæti selt Gylfa í sumar

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton. AFP

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur ekki átt sinn besta vetur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en hann hefur átt slakt tímabil með Everton miðað við frammistöðu hans á síðasta tímabili. Hann hefur aðeins skorað eitt mark í 26 leikjum og þá hefur Carlo Ancelotti, sem tók við sem knattspyrnustjóri um síðustu jól, mikið spilað Gylfa út úr stöðu.

Blaðamenn Liverpool Echo fjalla mikið um Everton og hafa þeir nú farið yfir leikmannahóp liðsins og velt því fyrir sér hvaða leikmenn verða áfram hjá Ancelotti á næsta tímabili og hvaða leikmenn verða látnir fara. Búist er við að félagið losi sig við allt að sjö leikmenn og er Gylfi einn þeirra.

„Þetta hefur verið sérstaklega erfitt tímabil fyrir Sigurðsson, hann hefur farið úr því að vera markahæsti leikmaður liðsins yfir í að vera notaður úti um allt á miðjunni,“ er skrifað í Echo en Gylfi skoraði 13 úrvalsdeildarmörk fyrir Everton á síðustu leiktíð.

„Í nýju leikkerfi Ancelottis hefur stöðu íslenska landsliðsmannsins einfaldlega verið útrýmt í heilu lagi. Hann þarf að finna nýjan tilgang innan liðsins og ef hann finnur hann ekki, og rétt tilboð kemur inn, þá er erfitt að sjá Everton segja nei við því.“

mbl.is