Hafnaði Liverpool í miðri læknisskoðun

Lee Bowyer í leik með Birmingham gegn Liverpool í september …
Lee Bowyer í leik með Birmingham gegn Liverpool í september 2010. EDDIE KEOGH

Lee Bowyer, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Leeds, var ansi nálægt því að ganga til liðs við Liverpool árið 2002. Bowyer var þekktur vandræðagemsi á sínum tíma en hann lék með Leeds á árunum 1996 til ársins 2003 og skoraði 38 mörk í 203 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.

Gérard Houllier, þáverandi stjóri Liverpool, var mikill aðdáandi Bowyer og lagði mikla áherslu á að fá hann. „Ég var ansi nálægt því að ganga til liðs við Liverpool,“ sagði Bowyer í samtali við Sky Sports á dögunum en hann er í dag knattspyrnustjóri enska B-deildarfélagsins Charlton Athletic sem er í fallsæti í deildinni.

„Ég var hálfnaður með læknisskoðun mína þegar að ég fékk mikla bakþanka. Það var eitthvað sem var rangt við þetta á þeim tíma og ég fékk slæma tilfinningu. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá er það mín stærsta eftirsjá á ferlinum, að hafa hafnað Liverpool. Ef ég gæti spólað til baka þá er þetta það sem ég hefði breytt,“ bætti Bowyer við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert