Sorgleg niðurstaða fyrir Liverpool

Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool eru með 25 …
Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool eru með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. AFP

Sam Allardyce, fyrrverandi þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, telur að tímabilið í ensku úrvalsdeildinni verði ekki klárað vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á landið. Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu en alls eru nú 422 smit í landinu og er útgöngubann í gildi.

„Ég hef stórar áhyggjur af því að tímabilið verði ekki klárað í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Allardyce í samtali við Sky Sports. „Ég bara sé ekki hvernig þeir ætla að klára þetta þegar kórónuveirufaraldurinn er rétt að byrja í landinu okkar og fólk er eindregið hvatt til þess að vera heima og fara ekki út úr húsi.“

„Veiran hefur dreift úr sér út um allan heim og mörg lönd, þar með talið okkar land, er að lenda mjög illa í henni. Maður hefur það á tilfiningunni að það muni margir látast af völdum hennar hér á Englandi og það eina sem maður getur gert til að forðast smit er að halda sig í algjörri einangrun.“

„Tímabilinu verður líklegast slaufað en það yrði klárlega mjög sorgleg niðurstaða fyrir mörg lið í deildinni. Við erum með lið eins og Liverpool sem hefur átt stórkostlegt tímabil en þegar allt kemur til alls þá eru það mannslífin sem skipta mestu máli og heilsa fólks á alltaf að vera í fyrsta sæti, sama hvað,“ bætti Allardyce við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert