Hann fór ekki frá Liverpool peninganna vegna

Raheem Sterling hefur blómstrað hjá Manchester City.
Raheem Sterling hefur blómstrað hjá Manchester City. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester City, hefur komið Raheem Sterling til varnar og segir að það hafi ekki verið peninganna vegna sem leikmaðurinn yfirgaf Liverpool árið 2015 og gekk til liðs við Manchester City, sem keypti hann fyrir 49 milljónir punda. 

Það var á þeim tíma hæsta verð sem greitt hafði verið fyrir enskan leikmann og frá þeim tíma hefur Sterling verið afar óvinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool sem hafa sakað hann um peningagræðgi og baula jafnan talsvert á enska landsliðsmanninn þegar hann mætir til leiks með City á Anfield.

Sterling sagði sjálfur á dögunum að þrátt fyrir allt ætti Liverpool sérstakan stað í hjarta sér og hann myndi alls ekki útiloka að ganga aftur til liðs við félagið á einhverjum tímapunkti. „Satt best að segja elska ég Liverpool," skrifaði hann á Instagram en Sterling kom 15 ára gamall til Liverpool frá QPR árið 2010 og var í röðum félagsins í fimm ár.

Brendan Rodgers tók Sterling 16 ára gamlan inn í aðallið …
Brendan Rodgers tók Sterling 16 ára gamlan inn í aðallið Liverpool og seldi hann síðan fyrir 49 milljónir punda árið 2015. AFP

Rodgers var stjóri Liverpool þegar Sterling var seldur og sagði í viðtali við Liverpool Echo að fyrir leikmanninn hefðu peningarnir ekki skipt máli.

„Ef þetta hefði snúist um launin hefði hann getað verið áfram hjá Liverpool. Í hans augum var þetta spurning um að ná eins langt og hann mögulega gæti. Á þessum tímapunkti var þetta tækifæri til að fara í lið sem var skipað eintómum hágæðaleikmönnum. Hann fór þangað, hefur þróast og þroskast og orðið að sigurvegara, sem er auðsjáanlegt í leik hans í dag. Ég dáðist að því í fari Raheems að þó hann væri ungur var hann nákvæmlega með það á hreinu hve langt hann vildi komast," sagði Rodgers.

Sterling, sem nú er 25 ára gamall, fékk kornungur tækifæri hjá Liverpool undir stjórn Rodgers, spilaði 129 leiki fyrir Liverpool og skoraði í þeim 23 mörk. Hjá City hefur hann sprungið út sem leikmaður, skorað 55 mörk í 159 leikjum í úrvalsdeildinni og samtals 89 mörk í 230 mótsleikjum. Fyrir England hefur Sterling skorað 12 mörk í 56 landsleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert