Þú talar ekki svona um félagið þitt

Bacary Sagna var leikmaður Arsenal um árabil.
Bacary Sagna var leikmaður Arsenal um árabil. AFP

Knattspyrnumaðurinn Bacary Sagna, fyrrverandi leikmaður Arsenal og franska landsliðsins, er ekki par sáttur við ummæli Cesc Fabregas á dögunum en þeir voru samherjar hjá Arsenal um árabil.

Fabregas var fyrirliði Lundúnaliðsins í nokkur ár áður en hann yfirgaf félagið og sneri aftur heim til Barcelona á Spáni en hann sagði nýlega í viðtali að ein af ástæðum þess að hann fór hefði verið að fáir leikmenn hjá Arsenal hefðu verið jafn góðir og hann sjálfur.

„Við spiluðum fal­leg­an fót­bolta en síðustu tvö, þrjú árin fannst mér Robin van Persie og Sam­ir Nasri vera einu leik­menn­irn­ir sem voru jafn­ir mér, tækni­lega og and­lega. Það er ekki hroka­fullt að segja það,“ sagði Fabregas meðal annars í viðtali við Arseblog.

Sagna, sem var samherji Fabregas hjá Arsenal frá 2007 til 2011, segir ummælin hafa komið sér á óvart. „Ég varð hissa þegar ég las þetta. Að þetta komi frá honum, hann átti að vera einn af leiðtogunum í liðinu. Hann var sá sem allir litu upp til og sem leiðtogi og alvöruleikmaður, þá talarðu ekki svona um félagið þitt,“ sagði Sagna í viðtali við Goal.

„Hann er góður strákur og þetta breytir því ekki, en þessi ummæli komu mér á óvart.“

Cesc Fabregas spilar nú með Mónakó í Frakklandi.
Cesc Fabregas spilar nú með Mónakó í Frakklandi. AFP
mbl.is