Potter ætlar að þiggja lægri laun

Graham Potter er knattspyrnustjóri Brighton.
Graham Potter er knattspyrnustjóri Brighton. AFP

Graham Potter knattspyrnustjóri Brighton og helstu stjórnarmenn enska úrvalsdeildarféalgsins hafa ákveðið að þiggja lægri laun næstu þrjá mánuðina til að koma félaginu til aðstoðar í þrengingum af völdum kórónuveirunnar.

„Það er bara sanngjarnt að við tökum þátt í því að draga úr fjárhagslegum erfiðleikum félagsins," sagði stjórnarformaðurinn Paul Barber við BBC.

Áður hafði Eddie Howe knattspyrnustjóri Bournemouth ákveðið að þiggja lægri laun og sama hafa stjórnarmenn í Tottenham, Newcastle og Norwich tilkynnt.

Ekki er komin niðurstaða í viðræður innan samtaka atvinnuknattspyrnumanna og ensku úrvalsdeildarinnar um hvernig staðið verði að launalækkunum leikmanna í deildinni.

mbl.is