Tekur á sig sömu launalækkun og leikmenn

Leikmenn West Ham
Leikmenn West Ham AFP

Karren Bra­dy, vara­formaður stjórn­ar enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins West Ham, ætlar að taka á sig sömu 30% launalækkun og leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar vegna kór­ónu­veiruf­ar­ald­urs­ins sem nú herj­ar á heims­byggðina.

Forráðamenn deildarinnar og samtök leikmanna munu funda í dag um fyrirhugaða launalækkun sem mun meðal annars gefa deildinni svigrúm til að styrkja neðri deildirnar og heilbrigðiskerfið í Bretlandi.

Brady, sem á dögunum kallaði eftir því að núverandi tímabil yrði dæmt dautt og ómerkt, segir að allir innan knattspyrnuheimsins þurfi að standa saman. Hún telur launalækkunina sanngjarna og nauðsynlega og þá sé ekki síður sanngjarnt að hún, og aðrir í hennar stöðu, geri slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert