Þrír Spánverjar á óskalista Arsenal

Carlos Soler hefur spilað vel með Valencia á tímabilinu.
Carlos Soler hefur spilað vel með Valencia á tímabilinu. AFP

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, ætlar sér að styrkja leikmannahóp liðsins í sumar en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Arteta tók við stjórnartaumunum hjá félaginu 20. desember síðastliðinn og skrifaði undir þriggja ára samning við félagið en hann lagði skóna á hilluna árið 2015 eftir að hafa gengið til liðs við Arsenal sem leikmaður árið 2011 frá Everton.

Samkvæmt fjölmiðlum á Englandi eru þrír Spánverjar efstir á óskalista félagsins, miðjumaðurinn Marc Roca sem leikur með Espanyol, kantmaðurinn Carlos Soler sem leikur með Valencia og varnarmaðurinn Unai Núnez sem leikur með Athletic Bilbao. Arsenal þyrfti hins vegar að punga út tæpum 100 milljónum punda fyrir þessa leikmenn.

Búast má við því að einhverjir leikmenn yfirgefi Arsenal í sumar en ef liðið kemst ekki í Meistaradeildina á næstu leiktíð mun Arteta ekki fá mikið fjármagn til leikmannakaupa. Spænski stjórinn þarf því að selja leikmenn ef hann ætlar sér að styrkja hópinn en Arsenal er sem stendur í níunda sæti deildarinnar með 40 stig, 13 stigum frá sæti í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert