Rökrétt að Sánchez snúi aftur

Það hefur lítið gengið hjá Alexis Sánchez undanfarið.
Það hefur lítið gengið hjá Alexis Sánchez undanfarið. AFP

Það hefur lítið gengið hjá knattspyrnumanninum Alexis Sánchez eftir að hann gekk í raðir Manchester United frá Arsenal fyrir tveimur árum. Hann er nú að láni hjá Inter á Ítalíu og hefur þar lítið spilað og mikið verið frá vegna meiðsla.

Sánchez mun snúa aftur til United í sumar og var búist við að félagið myndi reyna að selja hann þá en vegna breyttra aðstæðna gæti hann skyndilega átt framtíð í Manchester. „Vegna þess sem er að gerast í heiminum sé ég ekki lið fara að kaupa leikmenn á hundrað milljónir í sumar,“ skrifar Paul Merson, sparkspekingur á Sky Sports. Mikil óvissa ríkir vegna kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina og því minni líkur á að félög eyði miklum fjármunum í leikmannakaup á næstunni.

„Það myndi kosta United 60 eða 70 milljónir að kaupa leikmann í stað Sánches. Ég held að félög geti ekki gert það í ár og þess vegna þarf United að reyna nota Sílemanninn. Hann er frábær leikmaður þegar hann er upp á sitt besta,“ bætti Merson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert