Dýrasti leikmaður í sögu Liverpool?

Kalidou Koulibaly er orðaður við Liverpool þessa dagana.
Kalidou Koulibaly er orðaður við Liverpool þessa dagana. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool er sagt undirbúa risatilboð í Kalidou Koulibaly, varnarmann ítalska knattspyrnufélagsins Napoli, en það eru franskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Koulibaly hefur sjálfur sagt að hann hafi áhuga á því að spila með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni en hann er til sölu fyrir rétta upphæð í sumar.

Koulibaly gekk til liðs við Napoli frá Genk árið 2014 og hefur því leikið á Ítalíu undanfarin sex tímabil. Hann er 28 ára gamall en franski miðillinn Le 10 Sport segir að Liverpool sé tilbúið að borga í kringum 85 milljónir punda fyrir senegalska varnarmanninn. Það myndi gera hann að dýrasta varnarmanni heims.

Enskir fjölmiðlar hafa hins vegar sagt að forráðamenn Liverpool ætli sér að fara hægt í sakirnar á leikmannamarkaðnum í sumar vegna efnahagsáhrifa frá kórónuveirunni. Koulibaly er hins vegar til sölu og fari svo að verðmiðinn á honum lækki gæti Liverpool freistast til þess að leggja fram tilboð í leikmanninn.

Dejan Lovren mun yfirgefa Liverpool í sumar, sem og Adam Lallana en þeir eru báðir á góðum launum hjá félaginu. Klopp vill bæta við nýjum miðverði á Anfield þar sem hann vill hafa fjóra kosti í þeirri stöðu en fari svo að Koulibaly komi á Anfield myndi hann mynda eitt sterkasta varnarpar heims með Hollendingnum Virgil van Dijk.

mbl.is