Óttast dauðsfall í ensku úrvalsdeildinni

Nigel Pearson
Nigel Pearson Ljósmynd/Watford FC

Nigel Pearson, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Watford, óttast mögulegar afleiðingar þess að enska úrvalsdeildin fari af stað á ný. Lið gætu byrjað að æfa á nýjan leik eftir helgi og þá er vonast til að deildin fari aftur af stað í næsta mánuði. 

Pearson hefur sínar efasemdir og óttast afleiðingar þess að byrja of snemma. „Guð minn almáttugur, ef einhver deyr,“ sagði Pearson við The Times. „Fólk er að loka augunum. Við viljum byrja aftur, en það verður að vera öruggt og við verðum að fara varlega. Fólk hunsar áhættuna,“ bætti hann við. 

„Það er enn ótrúlega mikið af fólki að deyja á Bretlandseyjum, tæplega 40.000 manns hafa dáið. Það er ömurleg tilhugsun,“ sagði Nigel Pearson. Er hann ekki sá eini sem hefur lýst áhyggjum sínum að undanförnu. 

Leikmenn á borð við Raheem Sterling, Danny Rose, Troy Deeney, Ben Foster og Glenn Murrey hafa allir opinberlega lýst yfir áhyggjum af því að enski boltinn fari af stað á nýjan leik á næstu vikum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert