Vill bara vera hluti af liði aftur

Joe Hart.
Joe Hart. AFP

Markvörðurinn Joe Hart hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár en hann hefur ekki komið við sögu í ensku úrvalsdeildinni síðan á öðrum degi jóla árið 2018, þrátt fyrir að vera samningsbundinn Burnley.

Hart, sem varð enskur meistari með Manchester City tvisvar og á 75 landsleiki að baki fyrir England, er varamarkvörður liðsins á eftir Nick Pope. Hann er 33 ára og verður samningslaus í sumar en hvergi af baki dottinn.

„Ég vil bara spila,“ sagði Hart í viðtali við The Guardian. „Ég er ekki viss um að ég geti það á Englandi og það er auðvelt fyrir mig að fara utan, vegna alls sem ég hef afrekað hér heima fyrir.“

Hart spilaði tímabili 2016—'17 á Ítalíu sem lánsmaður hjá Torino en hann hefur aðeins spilað þrjá leiki fyrir Burnley á tímabilinu, alla í bikarleikjum. „Ég vil bara vera hluti af liði aftur. Ég veit að ég er ekki að fara til Real Madríd en ég hef ekki misst getuna til að vera markvörður. Ég veit hvernig maður spilar fótbolta og mig langar að tilheyra félagi og gefa því allt sem ég á.“

mbl.is