Nýr samningur á borðinu

Pierre-Emerick Aubameyang hefur skorað 61 mark fyrir Arsenal síðan hann …
Pierre-Emerick Aubameyang hefur skorað 61 mark fyrir Arsenal síðan hann kom til félagsins frá Borussia Dortmund í janúar 2018. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Arsenal eru ekki tilbúnir að missa fyrirliða liðsins Pierre-Emerick Aubameyang í sumar og hafa nú boðið honum nýjan og betrumbættan samning samkvæmt enska miðlinum Sportsmail. Aubameyang kom til Arsenal frá Borussia Dortmund í janúar 2018 fyrir 56 milljónir punda, en hann verður samningslaus sumarið 2021.

Aubameyang hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið en hann er orðinn þrítugur. Enskir fjölmiðlar segja að hann vilji fá í kringum 250.000 til 300.000 pund á viku ef hann á að framlengja en í dag þénar hann 200.000 pund á viku. Það samsvarar rúmlega 33 milljónum íslenskra króna á viku.

Aubameyang hefur verið orðaður við stórlið á borð við Inter Mílanó, Barcelona og PSG undanfarnar vikur. Hann hefur skorað 61 mark í 97 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum frá því hann kom frá Dortmund. Fyrir kórónuveirufaraldurinn vildi Arsenal fá í kringum 60 milljónir punda fyrir framherjann sem gæti reynst erfitt ef horft er til efnahagsástandsins í fótboltanum í dag.

mbl.is