Áfall fyrir Tottenham?

Jan Vertonghen gekk til liðs við Tottenham frá Ajax sumarið …
Jan Vertonghen gekk til liðs við Tottenham frá Ajax sumarið 2012. AFP

Jan Vertonghen, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham, verður samningslaus 30. júní en hann hefur ekki viljað framlengja samning sinn við enska félagið. Vertonghen er orðinn 33 ára gamall en hann gekk til liðs við Tottenham frá Ajax árið 2012 og hefur því verið í herbúðum liðsins í átta ár.

Ekkert hefur verið leikið í ensku úrvalsdeildinni síðan 9. mars en forráðamenn deildarinnar stefna á að byrja spila að nýju 17. júní. Alls eru níu umferðir eftir af tímabilinu á Englandi eða 92 leikir en stefnt er á að ensku úrvalsdeildinni verði lokið í ágúst, ef allt gengur eftir.

Enski miðillinn Times greinir frá því að Tottenham hafi boðið Vertonghen skammtímaframlengingu á samningi sínum en hann myndi þá klára tímabilið með Tottenham. Vertonghen hefur hins vegar ekki enn þá viljað skrifa undir þann samning og nú óttast forráðamenn Tottenham að missa Belgann fyrir lokasprett úrvalsdeildarinnar.

mbl.is